top of page
769505D7A988797241B2EF1D6AF0327B7960DC327351F3067A5001C7A66799D4_713x0.jpg

UM GAFLARANA

Hver við erum

Gaflaraleikhúsið er hópur atvinnufólks sem rak lítið leikhús við Víkingastræti í Hafnarfirði frá 2011 til ársins 2023 er húsið var rifið. Leikhúsið er enn án húsnæðis en hefur farið í samstarf við Borgarleikhúsið og Bæjarbíó í Hafnarfirði um sýningarhúsnæði. 

Að hópnum standa Ágústa Skúladóttir, Björk Jakobsdóttir og Gunnar Helgason. Auk þeirra sitja Björn Sigurðsson og Felix Bergsson í stjórn leikhússins. Lárus Vilhjálmsson var framkvæmdastjóri öll árin í Víkinbgastrætinu en er nú genginn frá borði.

 

Hópurinn hefur á síðustu árum framleitt fjölda nýrra íslenskra verka  bæði í samstarfi við aðra og á eigin spýtur. Eitt erlent verk hefur fengið að fljóta með en það var verðlaunaverkið Hvítt - frá Skotlandi - sem er fyrir yngstu börnin. Auk þessa fengu danshópar, erlendir leikhópar og skólaleikhús inni í húsinu með fjölda sýninga.  Leikhúsið sá einnig um leiklistarkennslu í unglingadeildum grunnskólanna í Hafnarfirði og kenndi á annað hundrað nemendum ár hvert. Fjöldi sviðslistafólks hefur starfað með hópnum bæði í leikverkefnum og eins sem kennarar í leiklistarskóla leikhússins. Leikhúsið fóstraði áz sínum tíma leikfélag Flensborgarskóla og aðstoðað það á alla máta til að koma upp sýningum.  

 

Listræn sýn Gaflaraleikhúsins er að skapa kraftmiklar, fyndnar, harmrænar, lifandi og sjónrænar leiksýningar úr efnivið sem gefur leikurum og listrænum stjórnendum mikið listrænt svigrúm og að ný íslensk verk verði í forgrunni verkefnavals. Verkin eiga að spegla samfélagið á ferskan og ögrandi hátt. Leikhúsið vill líka vera samfélagsleikhús með sterku sambandi við fólkið í nærumhverfinu sem ýtir undir aðsókn í leikhúsið.

 

Leikhúsið hefur frá upphafi lagt mikla áherslu á kennslu í leiklist fyrir börn og ungmenni með samstarfi við grunnskóla Hafnarfjarðarbæjar og með sjálfstæðum námskeiðum. Í framhaldi af þessu hóf leikhúsið starfsemi framtíðardeildar sem framleiddi leikverkefni með ungu fólki  á aldrinum 15-25 ára. Verkefnið er hugsað sem framhald af skólastarfinu og vera vettvangur fyrir ungmenni sem hafa mikla getu sem höfundar og leikarar til að þroskast og vera brú yfir í framhaldsnám í sviðslistum. Okkar skoðun er sú að til að leikhúsið nái til ungra áhorfenda  verði verkefnin að vera í augnhæð og byggja á þeirra upplifun af samfélaginu. Við höfum þá von í brjósti að byggja upp öflugt sjálfstætt leikhús sem þorir að takast á við verkefni sem ná til áhorfenda sem erfitt er að fá í leikhús, eins og t.a.m. ungmenni á aldrinum 15-25 ára.     

 

Fyrir nokkrum árum tók Gaflaraleikhúsið þátt í umsókn til Menningarstyrkja Evrópska Efnahagssvæðisins (EEA sjóðnum) með Menningarhúsinu  í Wroclaw í Póllandi, Bíó Paradís og Myndlistarskóla Reykjavíkur um verkefni  sem heitir „Ísland og Pólland gegn útilokun frá menningu“ og fjallar um að sýna leikverk með hljóðlýsingu (audio description) fyrir blinda og sjónskerta. Fyrir tveimur árum  fékk verkefnið 30 milljón króna styrk frá EES sjóðnum og var fyrsta verkefnið sýnt í Bíó Paradís á síðasta ári.  Haustið 2014 var pólski einleikurinn Líkið mitt eftir Boguslav Kierc sýnt í Gaflaraleikhúsinu með hljóðlýsingu. Árið 2015 fer síðan Unglingurinn frá Gaflaraleikhúsinu til Wroclaw sömu erinda.  Leikhúsið er nú í samstarfi við nokkur leikhús og leikhópa í Finnlandi, Litháen, Rúmeníu, Þýskalandi, Portúgal og Ítalíu um umsókn úr Creative Europe sjóði Evróðusambandsins um verkefni sem kallast „The Many Faces of Europe“ þar sem hópur listamanna frá öllum löndunum mun vinna að sameiginlegri sýningu um jaðarhópa í Evrópu og verður linsunni sérstaklega beint að Roma fólki (sígaunum) en leikstjóri sýningarinnar er Roma maður. Alþjóðlegt samstarf listamanna er nauðsynlegt til þess að efla og þróa listræna þróun í hverju landi. Heimskur er heimakær maður og við hjá Gaflaraleikhúsinu teljum að alþjóðlegt samstarf sé hópnum nauðsynlegt til að eflast og þroskast.

 

Öflugt samstarf við aðra sjálfstæða sviðslistahópa var - og verður vonandi aftur - einn af hornsteinum leiklistarstarfs í Gaflaraleikhúsinu. Það er staðreynd að það er ekki mörg í hús að venda fyrir sviðslistafólk á Íslandi og þegar litlir fjármunir eru  til framleiðslu hjá sjálfstæðum hópum er samstarf við aðra oft eina leiðin til að koma verkefnum á koppinn. Leikhúsið átti t.a.m gott samstarf við Skýjasmiðjuna sem gerði  þeim kleyft að setja upp sýninguna Hjartaspaða hjá okkur og nokkrir danshópar hafa sýnt í húsinu. 

 

Framtíðarmarkmið Gaflaraleikhússins er að byggja upp öflugt atvinnuleikhús á Íslandi  sem leggur áherslu á góðar og vandaðar, íslenskar sýningar fyrir unga áhorfendur og skellir inn á milli flottum sýningum fyrir fullorðna.

 

Leikhúsið stendur á tímamótum vegna húsnæðisleysis. Það er ætlun okkar að halda starfseminni áfram og þá í samstarfi við önnur leikhús. En á meðan við erum húsnæðislaus getum við ekki sinnt okkar mikla starfi með öðrum leikhópum og skólum né sinnt leiklistarkennslu. Það er einlæg von okkar að Hafnarfjarðarbær hjálpi okkur að komast undir eigið þak sem fyrst því eitt er víst: Það bráðvantar leikHÚS á höfuðborgarsvæðinu. 

bottom of page